Driplið

Driplið er tækniþjálfun sem er ætlað krökkum á aldrinum 9-11 ára. Hægt er að nálgast Driplið á þessari síðu og á YouTube rás KKÍ. Driplinu er ætlað að auka tæknilega færni barna og auka áhuga á tækniæfingum.

Driplinu er skipt í þrjá aldursflokka og hver aldursflokkur ber einn lit.
Sjá æfingar og upplýsingar hér fyrir neðan í hverjum lit fyrir sig.

Hver litur inniheldur 17 æfingar sem sýndar eru í 7 myndböndum. Æfingarnar eru settar upp þannig að iðkandi á að geta æft sig hvar sem er, jafnt inni sem úti, einn eða með fleirum.

Hugmyndin í kringum litina rauður, blár og hvítur er vísan í íslenska fánann. Ætlast er til þess að þjálfarar hvers flokks leggi verkefnið fyrir sína iðkendur á æfingu og hvetji þá til að æfa sig utan æfingatíma. Í lok vetrar ættu allir iðkendur að vera búnir að ná að framkvæma hverja æfingu vel.

Þegar að þjálfarar telja að iðkendur hafi náð nægilegri færni hefur þjálfari stöðumatsæfingu þar sem iðkendur geta unnið sér inn armband með tilteknum lit. Það er þjálfarans að sjá til þess að iðkendur verði búnir að æfa sig það vel um veturinn að þeir geti framkvæmt æfingar og allir ættu að geta fengið armbönd. KKÍ mun senda félögum armböndin.

Athugið!
Þeir iðkendur sem eru 10 ára mega vinna sér inn bláa og rauða armbandið en þau mega ekki reyna við hvíta fyrr en þau eru orðin 11 ára. Sama gildir um 11 ára þau mega vinna sér inn bláa og rauða armbandið. 9 ára mega bara vinna sér inn rauða armbandið.

Hægt er að líta á Driplið sem einhverskonar námsskrá fyrir iðkendur og því kjörið verkfæri fyrir þjálfara að vinna með. Hugmyndin er að Driplið verði undanfari fyrir Úrvalsbúðir KKÍ og þyrftu þá þátttakendur Úrvalsbúða að vera búnir að fá viðeigandi armband áður en þeir mæta í Úrvalsbúðir. Þetta hjálpar þjálfurum að velja þá iðkendur sem eiga heima í Úrvalsbúðum.

Það er von KKÍ að þjálfarar og félög taki Driplinu fagnandi og það nýtist vel í ykkar starfi og til útbreiðslu körfuboltans.

Aðalstyrktaraðili
Samstarfsaðilar KKÍ