Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tók til starfa á vormánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust.
Samskiptaráðgjafi hefur það markmið að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar. Þjónusta og ráðgjöf samskiptaráðgjafa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi á landinu. Til samskiptaráðgjafa er hægt að leita með mál er varða andlegt-, líkamlegt- og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik sem hafa komið upp á vettvangi íþrótta- eða æskulýðsstarfs. Einnig mun samskiptaráðgjafi koma á samræmdum viðbragðsáætlunum á landsvísu í þessum málaflokkum.
Starfi samskiptaráðgjafa sinnir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, klínískur sálfræðingur, með aðsetur í húsnæði Domus Mentis- Geðheilsustöðvar. Hægt er að hafa beint samband við hana og er hún með símatíma alla þriðjudaga kl. 10-11, í síma 839-9100. Utan þess tíma er hægt að hringja í símanúmerið en ekki alltaf öruggt að ná samtali. Einnig er hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er.
Eftir samtal eða fyrstu samskipti við samskiptaráðgjafa er boðið upp á viðtal ef málið varðar áreitni, ofbeldi eða einelti. Þá er frekari upplýsinga aflað og í kjölfarið eru næstu skref ákveðin, ávallt í samráði við þann sem leitar til samskiptaráðgjafa. Einnig er hægt að leita eftir ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa, ekki þarf að fara lengra með mál ef viðkomandi kýs það ekki.
Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem getur aðstoðað og leiðbeint einstaklingum sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi eða misrétti í íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Þjónusta samskiptaráðgjafa er gjaldfrjáls.
Vefsíða samskiptaráðgjafa er www.samskiptaradgjafi.is og mun hún þjóna sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Hægt er að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa í gegnum síðuna, tilkynna atvik og fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – –
Nánar um samskiptaráðgjafa:
Allir eiga rétt á því að geta stundað sitt íþrótta- og/eða æskulýðsstarf í öruggu umhverfi. Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem styður við, leiðbeinir og aðstoðar þá sem hafa upplifað einhverskonar ofbeldi eða einelti í slíku starfi.
Einnig eiga allir iðkendur; börn, unglingar og fullorðnir óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti að geta leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingar.
Hverjir geta leitað til samskiptaráðgjafa?
Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til skipulagðrar starfsemi á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Það þýðir að allir sem sækja skipulagðar æfingar eða félagsstarf hjá skátunum, KFUM og KFUK, Landssambandi ungmennafélaga, íþróttafélögum eða bandalögum sem tilheyra UMFÍ og/eða ÍSÍ, geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti eða ofbeldi sem þeir telja sig hafa orðið fyrir í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi.
Markmið:
Markmiðið með starfsemi Samskiptaráðgjafa er að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.
Það þýðir að allir sem sækja skipulagðar æfingar eða félagsstarf hjá skátunum, KFUM og KFUK, Landssambandi ungmennafélaga, íþróttafélögum eða bandalögum sem tilheyra UMFÍ og/eða ÍSÍ, geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti eða ofbeldi sem þeir telja sig hafa orðið fyrir í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi.
· Hægt er að tilkynna atvik
· Hægt er að fá ráðgjöf
Ferlið:
Eitt af hlutverkum samskiptaráðgjafa er að leiðbeina þeim sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Hann aðstoðar við að koma kvörtun á framfæri við rétt yfirvöld og upplýsir og aðstoðar við að kynna þá þjónustu sem ríki og sveitafélög bjóða upp á.
Þetta er mikilvægur hluti af þjónustu samskiptaráðgjafa sem getur aðstoðað einstaklinga, hópa og félög við að vinna með einelti, áreiti eða ofbeldi. Þegar haft er samband við samskiptaráðgjafa er ákveðið ferli sem unnið er eftir.
Ferli mála hjá samskiptaráðgjafa
Einstaklingur hefur samband við Samskiptaráðgjafa með fyrirspurn, athugasemd, kvörtun eða tilkynningu.
· Samskiptaráðgjafi býður þér viðtal og þið finnið tíma sem hentar.
· Viðtal fer fram og frekari upplýsinga er aflað.
· Framhald málsins er ákveðið út frá upplýsingum sem koma fram í viðtalinu og óskum þínum.
· Samskiptaráðgjafi hefur samband við fleiri aðila málsins ef þörf er á, og í samráði við þig.
· Samskiptaráðgjafi aðstoðar þig við að koma málinu í ferli ef það er þín ósk.
· Samskiptaráðgjafi gefur út leiðbeinandi álit til málsaðila ef þess er þörf.
· Samskiptaráðgjafi fylgir málum eftir sé þess þörf með því að kanna eftir ákveðinn tíma hvort úrbætur hafi átt sér stað.
Samskiptaráðgjafi er hér til að hlusta, styðja þig og aðstoða með öll mál sem snerta óeðlileg samskipti eða áreiti við íþróttaiðkun eða æskulýðs- og tómstundastörf.
Þú getur fengið ókeypis ráðgjöf ef þú hefur orðið fyrir eða orðið vitni að einelti, kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi í íþróttum eða æskulýðsstarfi. Hægt er að panta viðtalstíma eða fá upplýsingar með því að hringja, senda tölvupóst eða fylla út formið hér á síðunni.
Símatími
Opinn símatími er alla þriðjudaga kl.10-11 í síma 839-9100. Utan símatíma er hægt að reyna að hringja í símanúmerið á dagvinnutíma og svarað verður ef samskiptaráðgjafi er á lausu. Þá er alltaf hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is og verður honum svarað eins fljótt og auðið er.
Fullur trúnaður
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs er bundinn trúnaði og innheimtir ekki gjald fyrir þjónustu sína. Hann starfar samkvæmt samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Domus Mentis – Geðheilsustöðvar
Sigurbjörg Sigurpálsdóttir
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs
Tölvupóstur: sigurbjorg@dmg.is
Heimilisfang: Þverholti 14, 105 Reykjavík
Sími: 839-9100